Tillögur Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að auka hlutfall nemenda sem ljúka framhaldsskólanámi

 

Reykjavík 30. nóvember 2017

 

Ágæti mennta- og menningarmálaráðherra.

Tillögur Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að auka hlutfall nemenda sem ljúka framhaldsskólanámi

Velferðarvaktin telur mikilvægt að sem flest ungmenni geti stundað nám við hæfi og þannig stuðlað að farsælu lífi til framtíðar. Hátt hlutfall brotthvarfs nemenda úr framhaldsskólum á Íslandi er því áhyggjuefni. Samkvæmt Hvítbók menntmálaráðuneytis er hlutfall fullorðinna án framhaldsskólaprófs hið hæsta meðal Norðurlandanna og það fimmta hæsta meðal OECD-ríkja eða um 30%. Þar kemur fram að hægt gengur að hækka menntunarstig þjóðarinnar og að þetta háa hlutfall fólks án framhaldsskólamenntunar geti haft alvarlegar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar. Samkvæmt skýrslu Barnaheilla–Save the Children á Íslandi, Ending Educational and Child Poverty in Europe, sem fjallar um fátækt barna og tengsl bágs efnahags við skort á tækifærum og menntun, er skortur á menntun einn helsti áhættuþáttur fátæktar og er brotthvarf einn þeirra mælikvarða sem stuðst er við. Samkvæmt skýrslunni er brotthvarf barna úr framhaldsskólum á Íslandi um 19%, en í Danmörku 8%, Svíþjóð 7%, Finnlandi 9% og Noregi 11%. Meðaltal brotthvarfs í Evrópu er 11%. Eitt af meginmarkmiðum Evrópu 2020 áætlunarinnar er að minnka brotthvarf úr framhaldsskólum niður fyrir 10% fyrir árið 2020. Miðað við þróunina hér á landi undanfarin ár er líklegt að ekki muni takast að koma brotthvarfi niður fyrir það mark fyrr en árið 2030 nema sérstaklega verði spornað við.

Velferðarvaktin telur að með eftirtöldum aðgerðum geti stjórnvöld stuðlað að bættu hlutfalli nemenda sem ljúka framhaldsskólanámi:

  1. Vinna markvisst að þeim árangri sem stefnt er að í Hvítbók menntamálaráðuneytisins um umbætur í menntun, en þar er sett það markmið að 60% nemenda ljúki námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma árið 2018 — úr 44% árið 2014.
  2. Styrkja forvarnir og heilsueflingu og bregðast strax við með heildrænum hætti ef vart verður við vanda nemanda í grunnskóla.
  3. Tryggja að stuðningur sem nemandi þarfnast í grunnskóla verði einnig tryggður  í framhaldsskóla. 
  4. Að skima í grunnskóla fyrir einstaklingum í áhættu á brotthvarfi.
  5. Auka stuðning við skóla vegna sértækra aðgerða sem sporna við brotthvarfi.
  6. Efla  náms- og starfsfræðslu í grunn- og framhaldsskólum til að stuðla að markvissu námsvali ungmenna og gefa nemendum kost á fjölbreyttu námsvali þannig að sem flestir hafi tækifæri til að ljúka námi við hæfi.
  7. Efla geðheilbrigðisþjónustu við framhaldsskólanema með greiðara aðgengi að sálfræðingum, þeim að kostnaðarlausu. 
  8. Auka aðgengi að félagsráðgjöf innan skólanna til að koma til móts við félagslega stöðu nemenda.
  9. Auka stuðning við starfsfólk skólanna og laða ungt fólk að kennaranámi svo skólarnir þróist sem öflug lærdómssamfélög sem ungmenni sækjast eftir að vera hluti af.
  10. Tryggja öllum nemendum í elstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla stuðning við nám og heimanám s.s. með námsverum.
  11. Auka aðgang að hljóðbókum og kynna kosti hljóðbóka fyrir nemendum. Tryggja að allir sem vilja geti nýtt sér þær til náms.
  12. Ungmennum sem hafa horfið frá námi verði boðið upp á einstaklingsmiðuð úrræði til að koma aftur í nám. Líta má til aðferðarfræðinnar í átaksverkefninu „Nám er vinnandi vegur“ sem fyrirmynd.
  13. Tryggja að allir nemendur eigi kost á að fara í framhaldssnám óháð aldri.
  14. Tryggja að skipulag framhaldsskóla geri ráð fyrir nægum frí- og hvíldartíma nemenda og jöfnu aðgengi allra að félagsstarfi.

Hvítbók menntamálaráðuneytis https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-media/media/frettir/Hvitbik_Umbaetur_i_menntun.pdf

Skýrsla Save the Children, Ending Educational and Child Poverty in Europe

https://www.savethechildren.nl/sci-nl/media/Save-the-children/PDF/ending_educational_and_child_poverty_in_europe_02-12-2016.pdf

F.h. Velferðarvaktarinnar

__________________________________
Siv Friðleifsdóttir, formaður


Velferðarvaktin er óháður álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunaaðila


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16