Þekktu rétt þinn, þekking er vald!

Þekktu rétt þinn, þekking er vald!
Sigþrúður, Ásmundur Einar og Ellen Calmon

Félags- og jafnréttismálaráðherra, Kvennaathvarfið og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa gert með sér samkomulag um verkefni sem ætlað er að efla fræðslu um þjónustu og lagaleg úrræði í þágu kvenna af erlendum uppruna hér á landi sem hafa orðið orðið fyrir heimilisofbeldi.

Ásmundur Einar Daðason, Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og Ellen Calmon, formaður Mannréttindaskrifstofu Íslands undirrituð samkomulag þessa efnis í dag sem ber yfirskriftina Þekktu rétt þinn, þekking er vald. Ásmundur Einar sagðist við undirritun samkomulagsins vonast til að það takist vel og komi að góðu gagni: „Þörfin fyrir verkefni sem þetta er sannarlega fyrir hendi, það er mikilvægt að sinna þessu af kostgæfni og það er ég fullviss um að verði gert.“

Haldin verða námskeið og unnið að útgáfu fræðsluefnis um íslenskt réttarvörslukerfi, verkferla og úrræði. Meðal annars verður veitt fræðsla þar sem fjallað er um ferli skilnaðar- og forsjármála, reglur um dvalarleyfi og margvíslegar upplýsingar um mikilvæg réttindi og skyldur sem mikilvæg eru konum við þessar aðstæður.

Í samkomulaginu um verkefnið er kveðið á um samráð við innflytjenda­ráð, dóms­málaráðu­neytið, lög­reglu, Barnaverndarstofu, félags­þjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu, félög og hagsmunasamtök innflytjenda og mögulega önnur félagasamtök. 

Stofnaður verður starfshópur sem útbýr fræðsluáætlun og námskeið fyrir konur af erlendum uppruna sem búa við félagslega erfiðleika og hafa lítið stuðningsnet. Stuðst verður við bæklinginn Réttur þinn auk fræðsluefnis sem Kvennaathvarfið og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa yfir að ráða. Auk skipulagðra námskeiða verður leitast við að ná til einangraðra kvenna og þeirra sem ekki eru líklegar til að heyra af eða sækja slík námskeið. Þannig er fyrirhugað að nálgast konurnar í gegnum Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossinn á Íslandi, Borgarbókasafnið, Hjálparstarf kirkjunnar, félagsstarf í Breiðholti og miðbæ o.fl.

Verkefnið er hluti af aðgerðum sem tilgreindar eru í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16