Nýja löggjöf í kynferðisbrotamálum, strax!

Nýja löggjöf í kynferðisbrotamálum, strax!
Dagný Ósk Aradóttir Pind, stjórnarkona KRFÍ

Nýja löggjöf í kynferðisbrotamálum, strax!

2015. Byltingarárið. Þúsundir kvenna hafa á þessu ári deilt reynslu sinni af ofbeldi. Konur hafa risið upp og vakið athygli á því misrétti og ofbeldi sem þær verða fyrir, krafist yfirráða yfir eigin líkama.

Konur verða fyrir ofbeldi á hverjum einasta degi í samfélagi okkar. Og sjaldnast er refsað fyrir þetta ofbeldi. Hvernig má það vera? Helmingur þjóðarinnar verður reglulega fyrir ofbeldi og við gerum ekki neitt. Eða allavega ekki nóg.

Umræðan er að þróast, en við þurfum að taka fleiri skref. Við þurfum að gera raunverulegar breytingar.

Fjöldi kynferðisbrotamála fer aldrei fyrir dóm. Undanfarið hafa einnig fallið sýknudómar sem margir eru hugsi yfir. Viðkvæðið er yfirleitt að þetta sé erfiður málaflokkur, sönnunarstaðan erfið, orð gegn orði o.s.frv. Þetta eru ekki nógu góð svör. Við getum ekki leyft þessu að vera svona lengur.

Má vera að það sé í grundvallaratriðum eitthvað rangt við það hvernig bæði menningin okkar og lagaákvæðin eru? Refsiákvæði hegningarlaga Íslendinga gera þá kröfu að ofbeldi, hótun um ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung sé beitt við samræði eða kynferðismök: þá er það nauðgun. Nauðgun er því ekki skilgreind sem ofbeldi sem slík, það verður að vera auka ofbeldi. Svona eru refsiákvæði fyrir nauðgun almennt í landslögum annarra ríkja heimsins, eða þá að krafist sé skorts á samþykki.

Alþjóðalög og samningar hafa þróast lengra en lög flestra ríkja og ekki er gerð þessi ofbeldiskrafa eða samþykkiskrafa. Í stuttu máli er nauðgun í alþjóðalögum skilgreind sem kynferðisleg innrás í þvingandi aðstæðum. Þvingunin getur verið sálfræðileg, efnahagsleg eða misnotkun á trausti. Gengið er út frá því að kynlíf sé almennt gagnkvæmt, og að skortur á gagnkvæmni leiði til þess að um nauðgun sé að ræða.

Lög eru meira en bara einhver tæknileg ákvæði sem lögmenn og dómarar beita. Lögin móta viðhorf okkar, hegðun okkar og menningu okkar. Það er kominn tími til að breyta lögunum, að semja nýja kynferðisbrotalöggjöf sem verndar okkur öll.

 


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16