Mannréttindaskrifstofa Íslands gefur bókasafn sitt

Mannréttindaskrifstofa Íslands gefur bókasafn sitt
Landsbókavörður afhendir MRSÍ þakkarbréf

Fimmtudaginn 9. apríl afhenti Mannréttindaskrifstofa Íslands Landbókasafni/Þjóðarbókhlöðu bókasafn sitt að gjöf. Frá stofnun skrifstofunnar hefur bókasafnið verið í uppbyggingu og margir leitað í það eftir heimildum og upplýsingum. Titlar bókasafnsins eru nú ríflega þúsund talsins, þar af helmingur tímarit, árbækur og skýrslur ýmiss konar. Formleg afhending bókanna fór fram í Landsbókasafni/Þjóðarbókhlöðu að viðstöddu starfsfólki og stjórnarfólki Mannréttindaskrifstofu Íslands og hluta úr starfshópi safnsins.

Mestur hluti bókanna er á ensku en einnig talsvert á Norðurlandamálunum og lítið eitt á frönsku, þýsku og spænsku. Síðustu ár hefur heimsóknum í bókasafnið fækkað og með gjöfinni vill skrifstofan auka aðgengi almennings að fræðiefni um mannréttindi.

Bjarni Jónsson, formaður framkvæmdastjórnar Mannréttindaskrifstofunnar sagði að hugmyndin að því að gefa bókasafnið hafi kviknað fyrir nokkrum misserum og að Landsbókasafnið hafi alltaf verið fyrsti kostur. Með því að fela Landsbókasafninu varðveislu safnsins vill skrifstofan auka aðgengi að þeim vísi að sérhæfðu safni sem þetta þó er svo það muni gagnast fræðasamfélaginu, en einnig áhugafólki um mannréttindi, á skilvirkari hátt.

Við afhendinguna sagði Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, að gjöfin innihaldi heilmikið af merkilegu efni, til dæmis gott safn af nýjum og verðmætum lögfræðibókum. Margt af efninu var ekki til á safninu áður og gjöfin því mikill fengur fyrir safnið og þá sér í lagi þar sem ekki var fyrir mikið efni um mannréttindi á safninu.


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16