Fréttabréf MRSÍ október 2014 - september 2015 - Komið út!

Hér má nálgast fréttabréfið í PDF formi.

Liðnir atburðir


Samstarfsverkefni

Samningur við velferðarráðuneytið um lögfræðiráðgjöf við innflytjendur

Þann 12. janúar 2015 endurnýjaði Velferðarráðuneytið samning við Mannréttindaskrifstofu Íslands um að annast lögfræðiráðgjöf við innflytjendur þeim að kostnaðarlausu. Mannréttindaskrifstofan hefur sinnt slíkri þjónustu síðastliðin þrjú ár og voru 513 viðtöl veitt á síðasta ári. Má því sjá talsverða fjölgun á milli ára.

Meira um það hér

Málþing um stöðu múslima á Íslandi

Framkvæmdastýra MRSÍ flutti erindi á málþingi um stöðu múslima á Íslandi, málfrelsi, trúfrelsi og þá hættu sem öfgafólk getur skapað í samfélaginu sem haldið var 17. janúar sl. í Iðnó. Í erindi sínu fjallaði hún m.a. um samspil trúfrelsis og hatursorðræðu.

Meira um aðra framsögumenn og fleira má finna hér.

Heimsókn frá slóvakískum félagasamtökum

Í ágúst mánuði fékk MRSÍ heimsókn frá tveim konum frá slóvakískum félagasamtökum í þeim tilgangi að kynnast íslenskum félagasamtökum sem starfa að málefnum barna og til að fræðast um hvernig unnið sé að réttindum barna á Íslandi. Heimsókn þessi var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES.

Meira má lesa um heimsóknina og frásögn kvennanna hér.

Heimsókn portúgalskra og pólskra fulltrúa

Í júní fékk MRSÍ heimsókn frá fulltrúum ýmissa kvennasamtaka frá Portúgal sem kynntu sér kvennahreyfinguna og störf  samtaka sem vinna gegn kynbundu ofbeldi og kynferðisofbeldi. Þau fengu  einnig kynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu varðandi nýjar starfsaðferðir við meðferð heimilisofbeldismála.
Þá tók MRSÍ einnig á móti hópi pólskra kvennasamtaka og kynnti starfsemi sína þann 2. júní sl.

Rúmensk samtök heimsóttu okkur í ágúst

Dagana 24. og 25. ágúst heimsóttu okkur samtök frá Rúmeníu sem vinna að 
mannréttindamálum. Höfðu þau einkum áhuga á að kynna sér starfsemi MRSÍ 
með framtíðarsamstarf í huga.


Fundir og mannfagnaðir

Hvernig má staðfesta að pyndingum sé ekki beitt?

Mannréttindaskrifstofa Íslands og Íslandsdeild Amnesty International stóðu fyrir málþingi um mikilvægi fullgildingar valfrjálsrar bókunar við samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, þann 6. mars. Framkvæmdastýra MRSÍ var fundastjóri og voru fyrirlesarar innlendir sem og erlendir sérfræðingar.

Lesa má meira um málþingið hér.

Femínismi gegn fasisma - Baráttufundur í Iðnó

Þann 8. mars var haldinn baráttufundur í Iðnó í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna fyrir friði og jafnrétti. Fundurinn var með hátíðarsniði vegna 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna og var boðið upp á pallborðsumræður að loknum framsögum sem framkvæmdastýra MRSÍ var þáttakandi í.

Meira um baráttufundinn hér.

Afmælismálstofa Mannréttindaskrifstofu Íslands

Þann 7. maí var 20 ára afmæli MRSÍ fagnað með afmælismálstofu um tjáningarfrelsi og trúfrelsi og skerðingu þeirra í ljósi hatursorðræðu. Áhugaverð erindi voru flutt af Claudie Ashonie Wilson sem fjallaði um réttinn til að móðga trú í nafni tjáningarfrelsis. Bjarni Jónsson, formaður stjórnar MRSÍ, flutti erindi Sigurðar Hólm Gunnarssonar, í forföllum hans, sem fjallaði um misskilið tjáningarfrelsi. Sjón flutti erindi undir yfirskriftinni Trú, vopn og kærleikur. Að lokum var boðið upp á léttar veitingar.

Myndir frá afmælismálstofunni má finna hér.

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Dagana 7. - 8. maí hélt Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sína árlegu Vorráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskrift að þessu sinni var "Fötluð börn verða fullorðin – Hvað bíður þeirra?" og var fjallað um efnið út frá margvíslegum sjónarhornum. Meðal þátttakenda var Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdarstýra MRSÍ, sem fjallaði um efnið út frá sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Lesa má meira um ráðstefnuna hér.

Fundur fólksins

Fundur fólsins er lífleg þriggja daga hátíð í Norræna húsinu um samfélagsmál sem haldin var 11. til 13. júní sl. Þar voru hin ýmsu félagasamtök með starfsemi alla hátíðina. Boðið var upp á líflega samfélagsumræðu milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka þar sem opin skoðanaskipti voru leiðarstef. Rætt var meðal annars um pólitíska hugmyndafræði á annan hátt en færi gefst í pólitísku þrasi hversdagsins. Framkvæmdastýra MRSÍ tók þátt í málþingi um hatursorðræðu sem haldin var á lokadegi hátíðarinnar.

Finna má frekari upplýsingar um hátíðina hér og hér.

Málþing um samfélagstúlkun

Þann 11. september var haldið málþing um túlkaþjónustu á vegum teymis um málefni innflytjenda í Safnaðarheimili Háteigskirkju. Þar flutti framkvæmdastýra MRSÍ erindi um réttaröryggi og réttarstöðu, lagareglur um túlkun og hver staðan er í nágrannalöndunum í túlkamálum. Auk þess var fjallað um samfélagstúlkun og menntun, , reynslu túlkaog reynslu fagfólks og stofnana af vinnu með túlkum svo eitthvað sé nefnt.

Meira um málþingið má lesa hér.


Sérverkefni

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti var í ár haldin dagana 14. – 21. mars með viðburðum um gjörvalla Evrópu. Yfirskrift vikunnar þetta árið var "Hönd í hönd" og sá hönnuðurinn Arna Rún Gústafsdóttir um hönnun vörumerkisins. Líkt og fyrri ár heldur MRSÍ utan um skipulagningu vikunnar í samstarfi við ýmis félagasamtök víðsvegar um landið. Í ár tóku þátt Evrópustofa, Rauði Kross Íslands, AFS á Íslandi, Landssamband æskulýðsfélaga, Ungliðahreyfing Rauða Kross Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Mannréttindastofa Reykjavíkur og Reykjavíkurborg.

Markmið verkefnisins var nú sem endranær að fræða ungmenni um kynþáttamisrétti og einnig að fræða þau um hvernig þau geti upplýst aðra um hinar ýmsu hliðar kynþáttamisréttis, hvernig sporna megi við því, osfrv.

Auk þess að fræðast um kynþáttmisrétti tóku nemendur og starfsfólk í yfir 20 grunnskóla um land allt, hönd í hönd í kringum skólabyggingar sínar til að sýna samstöðu með margbreytileikanum.

Jafnframt skrifuðu yfir 1000 ungmenna persónuleg póstkort sem send voru til handahófvalinna Íslendinga líkt og verið hefur síðustu ár. Skilaboðin voru skrifuð sem hvatning til samstöðu gegn kynþáttafordómum og var viðtakendum boðið að taka þátt í þeirri samstöðu með því að taka mynd af sér með skilaboðunum undir millumerkinu #hondihond.

Félagasamtökin UNITED birtu á heimasíðu sinni lista yfir verkefni sem þóttu sérlega vel heppnuð í tengslum við Evrópuvikuna gegn kynþáttamisrétti og var Ísland þar á meðal, þótti vitundarvakningin, einkum grunnskólaviðburðurinn, heppnast einkar vel í ár og ríkir mikil ánægja meðal MRSÍ og annarra samstarfsaðila með það.

Frekari upplýsingar um Evrópuvikuna er að finna hér og á facebook síðu hennar hér.


Önnur verkefni

Mannréttindaskrifstofa Íslands gaf bókasafn sitt

Þann 9. apríl afhenti MRSÍ Landsbókasafni/Þjóðarbókhlöðu bókasafn sitt að gjöf við formlega athöfn að viðstöddu starfsfólki og stjórnarfólki MRSÍ og hluta úr starfshópi safnsins. Var þar að finna ríflega 1000 titla sem ýmist voru bækur, tímarit eða ýmiss konar skýrslur á hinum ýmsu tungumálum.

Meira um það hér


Framundan

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Mannréttindaskrifstofa heldur utan um átakið líkt og undanfarin ár og tekur þátt í skipulagningu og framkvæmd þess. Þema ársins í ár er það sama og undanfarin ár eða Frá heimilisfriði til heimsfriðar.

Undirbúningur fyrir átakið er hafinn og stefnum við á að halda áfram með greinaskrif sem og að standa fyrir viðburðum þessa 16 daga.

Allar almennar upplýsingar um 16 daga átakið sem og upplýsingar um átak síðustu ára má finna á  heimasíðu okkar: http://www.humanrights.is/is/servefir/althjodlegt-16-daga-atak-gegn-kynbundnu-ofbeldi og einnig á facebook síðu átaksins: https://www.facebook.com/16dagar.

 

Uppbyggingarsjóður EES

Mannréttindaskrifstofan heldur áfram starfi sínu varðandi Uppbyggingarsjóð EES (áður þróunarsjóð EFTA) með tilheyrandi fundum.


Frekari fréttir af verkefnum Mannréttindaskrifstofunnar verður nú sem endranær hægt finna á heimasíðu okkar, www.humanrights.is

 


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16