Fréttabréf Mannréttindaskrifstofu Íslands janúar 2014 til október 2014

 Fréttabréfið er mun læsilegra á pdf-formi hér.

Liðnir atburðir


Nefndarstörf

Sæti í nefndum

Framkvæmdastjóri MRSÍ situr áfram í ýmsum nefndum og vinnuhópum er starfa á vegum ríkisins. Má þar nefna velferðarvaktina, sérfræðingahóp um mansal, valnefnd um formann kærunefndar útlendingamála, teymi um málefni innflytjenda og vinnuhóp um endurskoðun búsetuskerðinga.

 


Samstarfsverkefni

Mannréttindaskrifstofa Íslands samdi við innanríkisráðuneytið til fjögurra ára.

Mannréttindaskrifstofan hefur gert fjögurra ára styrktarsamning við innanríkisráðuneytið. Starfsemi skrifstofunnar styrkist með þessu fyrirkomulagi þar sem henni verður gert kleift að gera skýrari langtímaáætlanir á grundvelli öruggara rekstrarumhverfis. Með samningnum er lagt til grundvallar að skrifstofan styðjist við Parísarviðmiðin í starfsemi sinni um leið og starfseminni er veittur styrkur til lengri tíma og sjálfstæði skrifstofunnar undirstrikað.

Nánar hér.

ALÞJÓÐLEGUR GAGNAGRUNNUR YFIR NÚTÍMA ÞRÆLAHALD (GLOBAL MODERN SLAVERY DIRECTORY)

Þann 9.október var opnuð vefsíða með gagnagrunni sem sameinar hundruð samtaka um allan heim í baráttunni gegn mansali, alþjóðlegaur gagnagrunnur yfir nútíma þrælahald (Global Modern Slavery Directory). Gagnagrunnurinn er samstarfsverkefni Polaris, Walk Free Foundation og Freedom Fund, Mannréttindaskrifstofa Íslands kom að gerð hans sem samstarfsaðili.

Alþjóðlegi gagnagrunnurinn um nútíma þrælahald er vaxandi, opinber gagnagrunnur með skrá yfir 770 samtök og hjálparlínur sem vinna með mansal og nauðungarvinnu. Með fulltrúa yfir 120 landa, mun gagnagrunnurinn auðvelda þjónustuveitendum, lögreglu, stefnumótendum og talsmönnum að sjá hvaða samtök vinna gegn nútíma þrælahaldi í landinu og hvaða þjónustu vantar.

Frekari upplýsingar um gagnagrunninn má finna hér.

 


Fundir og mannfagnaðir

Spegill, spegill herm þú mér – ímynd fatlaðs fólks og öryrkja í fjölmiðlum

Framkvæmdastjóri MRSÍ tók þátt í hádegisumræðu fundi Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) með fjölmiðlafólki 19. febrúar. Rætt var um vitundarvakningu í mannréttindum fatlaðs fólks, nýja sýn, orðræðu og birtingarmyndir í fjölmiðlum sem gjarnan spegla samfélagið.

Hægt er að lesa nánar hér.

Málþing samráðsvettvangs trúfélaga – „Trú, skoðunarfrelsi og mannréttindi“

Framkvæmdastjóri MRSÍ var fundarstjóri á málþingi samráðsvettvangs trúfélaga, þann 27. febrúar, þar sem nokkrir af færustu sérfræðingum landsins á sviði trúarhefða og mannréttinda ræddu m.a. hversu langt trúfrelsi nær, hvernig unnt er að viðhalda jafnvægi á milli trúariðkunar og mannréttinda og hvaða úrræði séu fyrir hendi ef árekstrar eiga sér stað.

Meira um málþingið hér.

Málþing um réttlæti, Glerárkirkju

Framkvæmdastjóri MRSÍ flutti erindi um mannréttindi og réttlæti á málþingi um réttlæti á vegum Glerárkirkju 5. mars. Málþingið var eitt af nokkrum sem Glerárkirkja stóð fyrir um málefnið með það að markmiði að skapa vettvang fyrir opna umræðu um málefni sem snerta kirkju og samfélag, mannréttindi, fátækt og misskiptingu auðs, jafnrétti og jafnræði, einstaklingshyggju og samfélagslega ábyrgð.

Lesa má meira um málþingi hér.

Málþing um jafnrétti til náms.

Í tilefni landsþings Landssambands íslenskra stúdenta stóð sambandið fyrir málþingi um jafnrétti til náms 14. mars í háskólanum á Bifröst. Framkvæmdastjóri var með erindi og tók þátt í pallborðsumræðum á þinginu.

Nánari umfjöllun og dagskrá er hægt að skoða á facebook síðu nemendafélags háskólans á Bifröst hér.


Sérverkefni

Jafnréttisáætlun ESB - Progress

Auglýsingar, málstofur og rannsóknir í samvinnu við Jafnréttisstofu og Fjölmenningarsetur

Mannréttindaskrifstofa Íslands hélt í ár líkt og fyrri ár utan um Progress áætlun ESB.

Skrifstofan stóð að auglýsingaherferð gegn mismunun líkt og undanfarin ár en í ár var bryddað upp á þeirri viðbót að setja upp svokallaða vefborða. Birtust vefborðarnir á netmiðlum, s.s. vísi.is og mbl.is en einnig voru áfram lesnar auglýsingar í útvarpi. Hægt er að skoða auglýsingarnar nánar hér.

Málþing um margbreytileika samfélagsins.

Haldin voru tvö málþing um margbreytileika á vegum MRSÍ, Jafnréttisstofu og Fjölmenningarseturs. Fyrra málþingið var 30. janúar og voru erindi frá fulltrúum allra samtakanna gegnum fjarfundarbúnað um mismununartilskipanir ESB og margþætta mismunun sem og um rannsóknir Jafnréttisstofu um mismunun á vinnumarkaði og rannsókn Fjölmenningarseturs á uppruna og margþættri mismunun.

Meira um málþingið hér.

Síðara málþingið var 20. febrúar þar sem kynntar voru niðurstöður rannsóknanna sem og Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, var með erindi um innleiðingu mismununartilskipana Evrópusambandsins.

Meira um málþingið hér.

Þróunarsjóður EFTA

Skrifstofan hefur að ósk utanríkisráðuneytis tekið að sér að vera tengiliður frjálsra félagasamtaka í styrkþega ríkjum Þróunarsjóðsins við íslenska aðila með það að markmiði að þeir geti unnið saman að spennandi verkefnum á ýmsum sviðum. Vegna þessa hlutverks hafa starfsmenn skrifstofunnar ferðast til flestra styrkþega ríkjanna 15 og setið svokallaðar upphafsráðstefnur verkefnanna í hverju landi (launching conferences) ásamt því að fá aðra íslenska aðila með sér á slíkar ráðstefnur. Við höfum einnig tekið á móti hópum frá ríkjunum sem hafa fengið styrki til þess að heimsækja Ísland og kynna sér starfsemi frjálsra félagasamtaka og annarra aðila.

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

Þema Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti 2014 var Við erum öll hluti af sömu heild. Hönnuður myndar / logo verkefnisins í ár var Heiðrún Tinna Haraldsdóttir.

Í ár eins og síðustu ár tóku ýmis félagasamtök víðsvegar um land þátt í verkefninu en í ár voru það Skátarnir, KFUM/K, deildir innan Rauða krossins á Íslandi, Félag Horizon og nemendur úr grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið verkefnisins var nú sem endranær að fræða ungmenni um kynþáttamisrétti og einnig að fræða þau um hvernig þau geti upplýst aðra um hinar ýmsu hliðar kynþáttamisréttis, hvernig sporna megi við því, osfrv.

Auk þess að fræðast um kynþáttamisrétti hittust ungmennin í sínum félögum og skrifuðu persónuleg skilaboð á kort sem send voru til handahófsvalinna Íslendinga. Þar með stóðu vonir til að vekja aðra til umhugsunar um kynþáttamisrétti og fá fleiri liðsmenn í baráttunni gegn því.

Frekari upplýsingar og myndir er að finna hér og á facebook síðu Evrópuvikunnar hér.

Verkefni gegn hatursorðræðu

No Hate Speech Movement stendur fyrir jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika og er til þess gert að sporna gegn hatursáróðri, kynþáttafordómum og mismunun á netinu. Mannréttindaskrifstofa er fulltrúi í Landsnefnd átaksins, ásamt Heimili og Skóla, SAFT, Æskulýðsvettvanginum, Samfés og LÆF sem skipuð var af Menntamálaráðuneytinu.

Á alþjóðlega netöryggisdeginum, 11. febrúar, var haldin ráðstefna á vegum SAFT í samstarfi við innanríkis-, velferðar- og menntamálaráðuneytið, Póst- og fjarskiptastofnun og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þemað var „Gerum netið betra – saman“. Landsnefnd átaks gegn hatursorðræðu koma að skipulagningu ráðstefnunnar og var framkvæmdastjóri MRSÍ málstofustjóri á ráðstefnunni og hafði Steinunn Pieper umsjón með henni ásamt fulltrúa frá Heimili og skóla.

Nánar má lesa um ráðstefnuna á facebook síðu SAFT hér og kynna má sér átak gegn hatursorðræðu á facebook síðu þess hér. 


Önnur verkefni

UPR Info gaf út stöðuskýrslu um UPR ferlið gagnvart Íslandi

Reglubundið eftirlit Sameinuðu þjóðanna um mannréttindamál (Universal Periodic Review - UPR) ferlið fer fram fjögurra ára fresti. Mörgum af þeim tillögum sem koma fram við fyrirtöku ríkis á þó að hrinda í framkvæmd strax. Til þess að fylgjast betur með framkvæmd ríkisins í kjölfar fyrirtöku hefur mannréttindaráð S.þ. útfært ákveðið ferli til að meta mannréttindi ástandið eftir tvö ár frá því að ríki er tekið fyrir í UPR eftirlitinu. 
Í stórum dráttum, UPR Info leitast við að tryggja að ríki virði skuldbindingar sínar sem það tekst á hendur í kjölfar UPR fyrirtöku, en einnig að gefa hagsmunaaðilum kost á að deila áliti sínu á framkvæmdinni. Í þessu skyni, um tveimur árum eftir endurskoðun, kallar UPR Info eftir upplýsingum frá ríki og frjálsum félagasamtökum og hjá innlendum mannréttindastofnunum (NHRI), þar sem þær eru til staðar, um framkvæmd ríkisins (eða framkvæmdaleysi) er snerta þau tilmæli sem komu fram á fyrirtökunni fyrir mannréttindaráðinu.

Mannréttindaskrifstofan tók þátt í þessari stöðuskýrslu með því að senda athugasemdir til UPR Info.

Á þessari slóð má hlaða niður og lesa skýrsluna sem gefin var út í ágúst 2014 http://www.upr-info.org/followup/assessments/session26/iceland/MIA-Iceland.pdf

Ný vefsíða

Í lok febrúar þessa árs var tekin ákvörðun af hálfu framkvæmdastjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands um að uppfæra vefsíðu skrifstofunnar. Leitað var eftir tilboðum hjá Hugsmiðjunni sem hélt utan um þáverandi vefsíðu en einnig var leitað eftir tilboðum hjá Stefnu hugbúnaðarhúsi og var tilboði Stefnu tekið.

Í september eftir mikla vinnu starfsfólks skrifstofunnar var nýja vefsíðan sett í loftið. Slóðin er enn sú sama, www.humanrights.is og www.mannrettindi.is

Vefsíðan er öll mun aðgengilegri en áður ásamt því að ákveðið var að nota myndir úr útgáfu skrifstofunnar um mannréttindayfirlýsingu S.þ. á síðunni sem gefur henni afar fallegt yfirbragð.

Vefsíðan er að meginstefnu á íslensku en þó er mikið efni einnig aðgengilegt á ensku síðunni. Stefnt er að því að vera með upplýsingar um skrifstofuna og lögfræðiráðgjöfina á fleiri tungumálum, s.s. pólsku, spænsku og rússnesku og mun það koma inn eins fljótt og auðið er.

Upplýsinga fundur með einum af skýrslugjafa Evrópuráðsins um jafnrétti kynjanna

Þann 5. júní kom skýrslugjafi um jafnrétti kynjanna (Gender Equality Rapporteur) frá Evrópuráðinu á fund með framkvæmdastjóra. Var tilgangurinn að fá innlegg og sjónarhorn MRSÍ á stöðuna í jafnréttismálum á Íslandi eftir hrun.


Framundan


16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Undirbúningur fyrir átakið þetta ár er að hefjast og stefnum við á að halda áfram með greinaskrif sem og að standa fyrir viðburðum þessa 16 daga.

Allar almennar upplýsingar um 16 daga átakið sem og upplýsingar um átak síðustu ára má einnig finna á heimasíðu okkar: http://www.humanrights.is/is/servefir/althjodlegt-16-daga-atak-gegn-kynbundnu-ofbeldi og einni á facebook síðu átaksins https://www.facebook.com/16dagar 

Þróunarsjóður EFTA

Mannréttindaskrifstofan heldur áfram að halda utan um þróunarsjóðinn með tilheyrandi fundum.

 

Frekari fréttir af verkefnum Mannréttindaskrifstofunnar verður nú sem endranær hægt finna á heimasíðu okkar, www.humanrights.is

 


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16