Engin heildarsýn í þjónustu við ungmenni með tvíþættan vanda

Börnum vísað á vímuefnageðdeild fyrir fullorðna

Áþreifanlegur skortur er á heildarsýn og samfelldri, einstaklingsbundinni þjónustu við börn og ungmenni með geðrænan og vímuefnavanda og fjölskyldur þeirra á Íslandi. Tryggja þarf heildstæða einstaklingsbundna meðferð, auka samvinnu milli einstakra stofnana, koma á fót viðeigandi úrræðum og tryggja árangursríka eftirfylgni að því er fram kom í máli frummælenda á málþingi Geðhjálpar og Olnbogabarna á Grand Hótel 23. október síðastliðinn.

Fram kom að brýnt væri að koma á fót sérhæfðri vímuefnameðferð fyrir börn og ungmenni með geðrænan og vímuefnavanda allt upp í 25 ára aldur. Með sama hætti þyrfti að hleypa af stokkunum langtímaúrræði fyrir þennan hóp með mikilli, samræmdri og samfelldri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Frummælendur voru sammála um að styrkja þyrfti þjónustuna með aukinni samvinnu stofnana. Nefnt var að einstaka stofnanir – „töluðu ekki sama tungumálið“ með þeim afleiðingum að upp kæmi misskilningur, óþarfa flækjustig og þjónusturof. Notendur töluðu um að erfitt væri að rifja sífellt upp sögu sína fyrir nýjum meðferðaraðilum innan sömu eða á nýjum stofnunum.

Varpað var ljósi á fjölmargar brotalamir í þjónustu við börn og ungmenni með geðrænan og vímuefnavanda, þ.á. m. að alltof algengt væri að börnum væri vísað í úrræði fyrir fullorðna vegna skorts á sérhæfðum úrræðum fyrir börn. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans-Háskólasjúkrahúss (BUGL) hefur þurft að vísa börnum og ungmennum á sérhæfða fíknigeðdeild fyrir fullorðna á Landspítalanum af því engin sérhæfð deild af þessu tagi er til fyrir börn á Íslandi. BUGL hefur hvorki yfir að ráða sértækum greiningar- né meðferðarúrræðum vegna vímuefnaneyslu barna og ungmenna. Dæmi eru um að mjög ung börn hefðu notið þjónustu á Vogi og gist í Konukoti við hlið fullorðinna fíkla.

Fjórar ungar konur með reynslu af tvíþættum vanda  lögðu áherslu á einstaklingsmiðaða, samfellda þjónustu, eftirfylgni og upplýsingamiðlun til foreldra. Bent var á að eftirsóknarvert væri að ráða starfsfólk með persónulega reynslu í slík úrræði því að starfsfólk með eigin reynslu ætti auðveldara með að tengjast og þar með styðja ungmennin betur í bataferli þeirra heldur en aðrir. Með sama hætti  væri aldrei of snemmt að kynna sjálfshjálp og 12 spora kerfi fyrir ungmennum í vanda.

Konurnar lögðu til að að komið yrði á fót gistiskýli til að hýsa ungt fólk með tvíþættan vanda, sem vildi eða gætu ekki nýtt sér hefðbundin meðferðarúræði, m.a. til að tryggja að óvandaðir einstaklingar nýttu sér ekki neyð þess. Bent var á að skýra þyrfti viðbrögð lögreglu gagnvart því að slíkir einstaklingar skytu skjólshúsi yfir ungt fólk og misnotuðu í skiptum fyrir eiturlyf. Fleiri en einn frummælandi ítrekaði nauðsyn þess að bráðageðdeild væri opin allan sólarhringinn, m.a. með tilliti til þess að algengast væri að fólk skaðaði sig um miðja nótt.

Mýmörg dæmi eru um skelfilegar afleiðingar tvíþætts vanda meðal ungs fólks, m.a. sjálfsvíg, dauðsföll vegna vímuefnanotkunar og ýmis konar óæskilega hegðun. Fangelsismálastofnun áætlar að 50-70% fanga stríði við vímuefnavanda og stór hluti þess hóps eigi við geðrænan vanda að etja. Fram kom að stofnunin hefði takmörkuðu úrræði til að þjónusta þennan hóp í því skyni að koma í veg fyrir frekari neikvæðar afleiðingar.

Geðhjálp mun fylgja niðurstöðum málþingsins eftir með því að kalla aftur til opins fundar með fulltrúum, LSH, Barnaverndarstofu, Reykjavíkurborgar og Fangelsismálastofnunar á vormánuðum. Hægt er að horfa á fyrirlestra af málþinginu á eftirfarandi slóð: https://www.youtube.com/playlist?list=PLa_fQHzWy263U9jGO2ACDYLHkV4pYfDAA

Frekari upplýsingar veita Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, í síma 857 0463 og Anna G. Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sími 693 9391. 


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16