Bréfamaraþon Amnesty International

Um allan heim er frelsi fólks ógnað, mótmælendur eru fangelsaðir og jafnvel pyndaðir fyrir að birta skoðanir sínar opinberlega, aðgerðasinnar eru dæmdir til dauða,og konur og stúlkur deyja við barnsburð af því þær fá ekki notið nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu eða þær fá engu ráðið um líf sitt og líkama. 
Undanfarin ár í kringum 10. desember, sem er alþjóðlegur mannréttindadagur, hefur Amnesty International staðið fyrir einum stærsta mannréttindaviðburði heims – bréfamaraþoni. Þá koma hundruð þúsunda einstaklinga saman um víða veröld og senda bréf til yfirvalda sem brjóta gróflega á mannréttindum fólks. Einnig hafa þolendur mannréttindabrota fengið sendar stuðningskveðjur sem eru ekki síður mikilvægar því þær veita þolendum brotanna von og vissu um að umheimurinn hefur ekki gleymt þeim. 
Íslendingar hafi ekki látið sitt eftir liggja en á síðasta ári voru rúmlega 50.000 bréf og kort send utan.
Bréfin bera sannarlega árangur. Má sem dæmi nefna að Yorm Bopha var dæmd í þriggja ára fangelsi í Kambodíu eftir að hafa mótmælt þvinguðum brottflutningi á fólki í samfélagi hennar. Yorm var sleppt úr fangelsi í nóvember 2013 eftir að yfirvöld höfðu fengið 253.000 áskoranir frá stuðningsmönnum Amnesty í 54 löndum um að láta hana lausa. Mál hennar var tekið fyrir á bréfamaraþoni samtakanna. 
Þannig eru mörg dæmi um að þrýstingur á yfirvöld hafi borið árangur, fólk hafi losnað úr fangelsi, pyndarar sóttir til saka eða fólk fengið mannúðlegri meðferð í fangelsi. 

Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við. Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í ár í baráttunni fyrir betri heimi. Hjálpaðu til. Mannréttindaskrifstofa Íslands hvetur alla til að taka þátt í bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International sem fram fer, laugardaginn 6. desember frá 13 til 18 á skrifstofu samtakanna að Þingholtsstræti 27, þriðju hæð.
Boðið verður upp á kaffi og kruðerí og Sigríður Thorlacius, Guðmundur Óskar Guðmundsson og Svavar Knútur sjá um tónlist.

Hér er að finna hlekk á viðburðinn á facebook: https://www.facebook.com/events/1600259096863632/?fref=ts


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16