Ályktun sex kvennasamtaka: Íslandsdeild Amnesty International hvött til að spyrna gegn því að alþjóðasamtökin beiti sér fyrir kaupum á fólki

Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér ályktun í samstarfi við sex önnur kvennasamtök hér á landi þar sem Íslandsdeild Amnesty International er hvött til að spyrna gegn því að alþjóðasamtökin beiti sér fyrir kaupum á fólki. Ályktunina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan, en einnig á t.d. síðu KRFÍ og síðu W.O.M.E.N

Amnesty International hefur í meira en fimmtíu ár unnið þrekvirki. Stuðlað að lífi án ofbeldis, réttlæti og mannréttindum um allan heim. Samtökin njóta mikils trausts og virðingar og von okkar er að svo megi verða áfram.

Helgina 7.- 11. ágúst fundar alþjóðahreyfing Amnesty International í Dublin á Írlandi. Fyrir fundinum liggur tillaga um að Amnesty líti svo á að vændi eigi að gefa frjálst. Kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa verður samkvæmt tillögunni látið óatalið. Allt í nafni mannréttinda fólks í vændi. Ef tillagan verður samþykkt eru það alvarleg mistök sem ganga þvert á þá mannréttindabaráttu sem Amnesty er þekkt fyrir.

Að okkar mati er vændi ekki atvinnugrein. Vændi er ofbeldi og frjáls sala á fólki samræmist ekki okkar skilgreiningu á mannréttindum. Þar að auki er nær ógjörningur að skilja á milli vændis og mansals. Kaupendur hafa ekki hugmynd um hvort þær konur sem þeir kaupa, eru að selja sig af fúsum og frjálsum vilja eða þær eru gerðar út af manseljendum. Ef Amnesty vill uppræta mansal, er mikilvægt að samtökin geri sér grein fyrir að það verður ekki gert nema með því að minnka eftirspurn eftir vændi. Samhliða því þarf að bjóða upp á félagsleg úrræði fyrir þau sem stunda vændi og leiðir út.

Í heiminum er tekist harkalega á um það hvernig nálgast eigi vændi. Sumstaðar eru bæði kaup og sala bönnuð. Þannig voru íslenskar konur í vændi sekar að lögum fram til ársins 2007. Annars staðar hefur vændi verið gefið frjálst og þekktustu dæmin um þá leið eru Þýskaland og Holland. Í þeim löndum hefur vændisiðnaðurinn vaxið mjög og í skjóli hans þrífst mansal sérlega vel. Í þeim löndum hefur líf kvenna í vændi ekki orðið öruggara, en dólgar, vændishúsaeigendur og vændiskaupendur hafa hins vegar stöðu heiðvirðra kaupmanna og viðskiptavina.

Í Svíþjóð var vændi skilgreint sem ofbeldi gegn konunum sem það stunda og lög voru sett í samræmi við þann skilning árið 1999. Þannig var sala á vændi í lagi, en kaup á fólki ólögleg, svo og auðvitað milliganga um vændi og rekstur vændishúsa. Noregur og Ísland fóru að dæmi Svía árið 2009, eftir langa baráttu sameinaðrar kvennahreyfingar og fleiri aðila. Síðar hafa Kanada og Norður-Írland bæst í hópinn. Jafnréttisnefnd Evrópuþingsins lét gera úttekt á leiðum í baráttunni gegn vændi og mansali og samþykkti í framhaldi af því að mælast til þess við aðildarlöndin að þau færu að dæmi Svía og bönnuðu kaup á vændi.

Norræna leiðin er þekkt um allan heim sem sú árangursríkasta og réttlátasta í baráttunni gegn vændi og mansali. Í Noregi þar sem lögunum hefur verið framfylgt er talið að vændi hafi minnkað um 25%. Þar hefur ofbeldi gegn fólki í vændi ekki aukist, eftirspurnin hefur minnkað og viðhorfsbreyting hefur átt sér stað. Viðhorfskönnun sem gerð var á Íslandi af Gallup árið 2008 sýndi að meiri hluti bæði karla og kvenna og meirihluti fólks í öllum þáverandi flokkum vildi banna kaup á vændi.

Stígamót þjónusta fólk sem beitt hefur verið kynferðisofbeldi. Þar taka árlega 35-50 konur og nokkrir karlar þátt í sjálfshjálparstarfi vegna afleiðinga klámiðnaðarins. Afleiðingarnar eru sambærilegar við afleiðingar annars kynferðisofbeldis, þ.e.a.s. skömm, kvíði, þunglyndi, léleg sjálfsmynd og sjálfsvígshugsanir, en á ýmsa vegu ýktari. Þó ekki væri nema þess vegna, getum við í sameinaðri kvennahreyfingu ekki setið hjá og beðið þess sem verða vill í Dublin. Við buðum Herði Helga Helgasyni formanni Íslandsdeildarinnar til fundar við okkur þann 4. ágúst og kynntum honum viðhorf okkar. Á fundinum gaf formaðurinn ekki upp afstöðu Íslandsdeildar Amnesty og það veldur okkur áhyggjum.

Ef Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum þar með gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna myndi skaða þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty nýtur í dag. Það má ekki gerast.

Stígamót, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, og Femínistafélag Íslands skora á Íslandsdeild Amnesty International að halda á lofti norrænu leiðinni í Dublin um helgina og beita sér af alefli fyrir því að tillagan um að vændi verði gefið frjálst verði felld.

F.h. Stígamóta, Kvennaathvarfsins, Kvennaráðgjafarinnar, Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Kvenfélagasambands Íslands, Kvenréttindafélags Íslands, og Femínistafélags Íslands:

Guðrún Jónsdóttir
Sigþrúður Guðmundsdóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir
Anna Wozniczka
Una María Óskarsdóttir
Fríða Rós Valdimarsdóttir
Una Hildardóttir


Mannréttindaskrifstofa Íslands

Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð í Almannagjá á Þingvöllum hinn 17. júní 1994, á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins. Skrifstofan er óháð og vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. 

Valmynd

Skráðu þig á póstlista MRSÍ

Skráðu þig og fáðu fréttir, upplýsingar um ný verkefni og fleira frá okkur.

Mannréttindaskrifstofa Íslands | Kt. 620794-2019

Túngata 14 | 101 Reykjavík | Sími 552 2720 | info[hjá]humanrights.is

Skrifstofan er opin frá 9-12 og 13-16